Spurning nr. 7: Kristsfólk

Greg Aikins on February 19, 2016

Spurning nr. 7:  “Kristsfólk“

„Þú ert svo lík mömmu þinni.“  „Ég sá bara strax að þið væruð bræður.“  Stundum er auðvelt að sjá að fólk er náskylt.  Það sést t.d. á svip manneskjunnar eða hvernig hún talar eða hvernig hún notar handahreyfingar til að tjá sig.  En hvernig er hægt að bera kennsl á Jesú Kristi í manni?  Eina leiðin er þegar verk og orð okkar eru Kristi samkvæm, og heilagur andi staðfestir það í hjarta áhorfanda.  Ég gleymi því aldrei þegar vinur minn, eldri prestur og kristniboði, kraup niður og þvoði fæturna á lítilli konu í Albaníu á meðan að hann var að segja henni frá því hvernig Jesús hefði þvegið fæturna á lærisveinum sínum.  En það þarf ekki að vera svona dramatískt.  Stundum skipta litlir hlutir miklu máli eins og þegar við komum fólki á óvart með þjónustulund eða orð sem er vel sögð á réttum tíma.  Heilagur andi getur notað það minnsta sem við gerum til að sýna fólki í kringum okkar að við tilheyrum Jesú Kristi.

Síðasta spurningin í hópvinnunni Pílagrímafélagsins er: „Hver hefur séð Krist í þér s.l. viku?  Eða: Hver hefur fundið á eigin skinni að þú sért vinur og nemandi Jesú?“  Þegar manneskja er heilshugar að læra af Jesú Kristi er það auðsjáanlegt.  Þegar lærisveinarnir Pétur og Jóhannes voru handteknir og þurftu að svara fyrir sig frammi fyrir trúarlegu yfirvöldunum í Jerúsalem segir ritningin: „Þegar ráðsherrarnir sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu að þeir voru ekki lærðir, heldur óbrotnir alþýðumenn, undruðust þeir.  Þeir könnuðust og við að þeir höfðu verið með Jesú“ (Post. 4:13).  Og þegar fólk í sýrlensku borginni Antíokkíu talaði um fylgjendur Jesú, kallaði það þá „kristna“ eða „Kristsfólk“ af því að þeir töluðu stanslaust um Krist og sýndu í verki að þeir tilheyrðu honum sem konungi þeirra í alls konar aðstæðum (Post. 11:26).  Þannig á fólk í kringum okkur að hugsa um okkur sem pílagríma í fylgd með Jesú – sem „Kristsfólk.“ 

Hvað finnst þér, kæri vinur?  Hvernig hefurðu nýlega verið var við að einhver hafi séð Krist í þér?  Biðjum Drottin um að Jesús megi skína í gegnum það sem við segjum og gerum!